“Book Descriptions: Mold er bara mold er fyrsta skáldsaga Almars Steins Atlasonar, sem er landsmönnum að góðu kunnur vegna gjörninga sinna og málverka. Hér hannar Almar kassa utan um höfundarverk sitt sem er í þremur hlutum:
Með Venus í skriðdreka
Þindarlaus frásögn af erfiðum degi manns í Efra-Breiðholti
Frelsið er takmarkað
Ung kona brýst með klækjum, sviksemi og stælum út af búsetukjarna sínum í Reykjavík og tekur að slátra glaðlyndum, málgefnum karlmönnum á besta aldri unnvörpum með köldu blóði.
Eldri maður í Hafnarfirði fyllist hættulegum hugmyndum og enn hættulegri ábyrgðartilfinningu þegar bílskúrinn hans verður andsetinn af réttlætisþyrstri en örvilnaðri afturgöngu.
Málsmetandi og skynsamur embættismaður pikkar af handahófi á lyklaborð í takti sem hann trúir að hljómi svipað og ef hann væri í Excel. Hann rennir niður buxnaklaufinni.
Önnur ung kona kastar upp galli yfir kartöflubeð sem ætlað er að bjarga lífi hennar. Hún veltir því fyrir sér hvernig hlutirnir hefðu farið ef hún hefði aldrei myrt sambýlismann sinn.
Þetta er sagan af Beggu Sól, ævintýraleg hetjusaga í þremur hlutum um erfiðleika, ofbeldi, afleiðingar, sorgir og glórulaust klúður. Við fylgum Beggu eftir í gegnum völundarhús skriffinnskuvélarinnar, myrkar dýflissur þeirra valdagráðugu og virðulegu og út í raunir órablámans – handan þokunnar, réttlætisins og fjallanna.
Misskilningurinn er sannarlega það besta sem gvuð hefur fært manninum. Án hans gætum við aldrei elskað hvert annað.” DRIVE